Karlakórinn Lóuþrælar í Húnaþingi hefur sent frá sér sinn þriðja hljómdisk. Diskurinn, sem heitir Ég man þau jólin hefur að geyma tólf jóla- og aðventulög íslensk og erlend og eru þau frá ýmsum tímum. Stjórnandi kórsins er Guðmundur St. Sigurðsson og undirleikari er Elinborg Sigurgeirsdóttir. Kórinn skipa um 30 söngmenn úr öllum sveitum héraðsins. Í tilefni útgáfunnar mun kórinn halda tónleika á þremur stöðum nú á aðventunni. Fyrstu tónleikarnir verða í Búðardal miðvikudaginn 10. desember kl. 21, næstu á Hólmavík, laugardaginn 13. desember kl. 16 og á þeir síðustu í Félagsheimili Hvammstanga, miðvikudaginn 17. desember kl. 21.