Á mbl.is kemur fram að ákveðið hefur verið að fresta samningi vegna háhraðatenginga í dreifbýli og jafnframt framkvæmdum við verkefnið. Þannig er ljóst að ákveðið hefur verið að svíkja fyrri yfirlýsingar yfirvalda fjarskiptamála sem fullyrtu í sumar og haust að verkefninu lyki haustið 2009. Áður hafa orðið ítrekaðar tafir í mörg ár á þessu mikilvæga réttlætismáli landsbyggðarinnar með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir byggðaþróun og atvinnulíf á jaðarsvæðum. Kristján Möller samgönguráðherra sagði á Alþingi í mars síðastliðnum um að unnið væri að verkefninu á háhraða og á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í september, daginn eftir að tilboð voru opnuð, fullyrti ráðherrann að verkefnið væri í höfn og framkvæmdatíminn yrði ár.
Tilboð í verkefnið voru opnuð 4. september síðastliðinn eftir að opnun hafði verið frestað einu sinni og bárust sjö tilboð frá fjórum aðilum. Ríkiskaup hefur nú farið þess á leit við bjóðendur fyrir hönd Fjarskiptasjóðs að þeir framlengi gildistíma tilboða sinna til 20. janúar næstkomandi og er ljóst að verkinu mun seinka nokkuð vegna þessarar tafar.
Markmiðið með útboðinu var að veita öllum landsmönnum sem þess óska aðgang að háhraðanettengingu. Snýst verkefnið um uppbyggingu á háhraðanetsþjónustu á svæðum sem markaðsaðilar hafa ekki eða munu ekki bjóða uppá slíkar tengingar á markaðslegum forsendum. Felur útboðið í sér stuðning fjarskiptasjóðs við uppbyggingu á háhraðanettengingum á skilgreindum stöðum samkvæmt útboðinu en það eru lögheimili með heilsársbúsetu eða fyrirtæki með starfsemi allt árið þar sem háhraðnettengingar eru ekki fyrir hendi.