22/11/2024

Unglingalandsmót undirbúið

Á vef Héraðssambands Strandamanna – www.123.is/HSS – kemur fram að fyrr í mánuðinum var haldinn fundur með forsvarsmönnum UMFÍ vegna fyrirhugaðs unglingalandsmóts á Hólmavík 2010. Var þar farið yfir stöðu mála í ljósi efnahagsástandsins og í framhaldi af því tekin sú ákvörðun að Strandamenn myndu halda sínu striki með skipulagningu Unglingalandsmótsins. Staðan í verklegum framkvæmdum er sú að búið er að mæla fyrir íþróttavelli í Brandskjólum og mun sveitarfélagið Strandabyggð sjá um framkvæmdir við hann og byggja upp aðstöðuna. Þegar hefur verið stofnuð framkvæmdanefnd af hálfu Strandabyggðar.  Enginn vafi er á að mótshaldið er viðamesta og mikilvægasta verkefni sem Strandamenn hafa tekið sér fyrir hendur á þessu sviði.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar var tekin fyrir áskorun frá Ungmennafélagi Íslands til sveitarfélaga á landinu um að standa vörð um íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu nú á viðsjárverðum tímum. Starf sambandsaðila UMFÍ sé ein af grunnstoðum hvers samfélags og nú sem aldrei fyrr þurfa sveitarstjórnir að koma með myndarlegum hætti að rekstri þeirra til að tryggja hið mikilvæga starf sem unnið er innan þeirra raða.