22/11/2024

Dagskrá Húmorsþingsins á Hólmavík

Undirbúningur fyrir Húmorsþing á Hólmavík stendur nú sem hæst, en það hefst á morgun, laugardaginn 15. nóvember kl. 12:00 með málþingi á Café Riis sem stendur til kl. 17:00. Þjóðfræðistofa stendur fyrir málþinginu sem fjallar um húmor sem fræðilegt viðfangsefni, í samstarfi við Háskóla Íslands. Kl. 17:30 verður móttaka á sýningum í Þróunarsetrinu á Hólmavík og léttar veitingar. Um kvöldið verður síðan kvöldverður á Café Riis og síðar um kvöldið skemmtun með húmor og tónlist þar sem Þorsteinn Guðmundsson treður upp með fleirum. Allir hlutar dagskrárinnar eru opnir þeim sem hlýða vilja og taka þátt. Miðaverð fyrir bæði málþing og skemmtun er kr. 500.- Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is.


Í kynningu á málþinginu segir að þar muni bæði innlendir og erlendir fræðimenn og gamanleikarar stíga á stokk. Varpað verður ljósi á nýjustu rannsóknir og rætt um hlutverk húmors, t.d. í munnlegri hefð, fjölmiðlum, söfnum og í samskiptum fólks. Rætt verður um hin ýmsu form húmors, svo sem brandara, uppistand, satírur og kaldhæðni ásamt margvíslegri iðkun þeirra í daglegu lífi. Þá verður boðið til veislu og skemmtunar, en á boðstólnum verða m.a. gamanmál, glens, skens og hvers kyns fyndni.

Auk þess verða móttökur á ljósmynda- og skopteikningasýningu og efnt verður til grínkeppni með bröndurum, gamansögum og vísum. Eru menn hvattir til að senda grínefni á tölvutæku formi á dir@icef.is.  

Dagskráin er sem hér segir:

Laugardagur 15. nóvember 2008

Kl. 12:00 – 17:00 Málþing um húmor
Kristinn Schram, Þjóðfræðistofa 🙂 Þjóðfræði húmors
Jón Jónsson, Háskóli Íslands 🙂 Smælað að smælingjunum: skemmtanir förumanna
Kolbeinn Proppé, Fréttablaðið 🙂 Er húmörinn eins og blóðmörinn, bestur súr?
Kristín Einarsdóttir, Háskóli Íslands 🙂 Hvernig fannst þér skaupið: Áramótaskaup í samfélagslegu ljósi
Elliott Oring, California State University 🙂 Hin umdeilda fagurfræði brandara
Sigurjón Baldur Hafsteinsson Menningarmiðstöð Þingeyinga 🙂 Frá kálfskinnum til forhúða – safnamennska og húmor á Reðursafni
Arnar S. Jónsson, Sauðfjársetur á Ströndum 🙂 Sauðsháttur í safnamennsku

Kl. 17:30 – 18:30 Móttaka í Þróunarsetrinu á Hólmavík
Móttaka á sýningum Þjóðfræðistofu og Þróunarsetursins á Hólmavík. Leiðsögn um sýningu á skopteikningum Tryggva Magnússonar og ljósmyndasýningu Brian Berg: Kvikt landslag.

Kl. 20:00 Hátíðarkvöldverður á Café Riis
Þeir sem ekki eru skráðir á þingið og ætla á matinn þurfa að panta sérstaklega á Café Riis, s. 451-3567.

Kl. 21:00 – Skemmtidagskrá á Café Riis
Skemmtidagskrá þar sem fram koma meðal annars Þorsteinn Guðmundsson skemmtikraftur, Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur og keppt verður til úrslita í Grínkeppni Þjóðfræðistofu. Á eftir verður tónlist þar sem Arnar S. Jónsson ætlar að þeyta skífum og opinn bar á Café Riis fram á nótt.

Sunnudagur 16. nóvember 2008

Kl. 15.00 – Grínkeppni – barna- og unglingaflokkur á Galdraloftinu
Sérstök brandara og grínkeppni barna og unglinga verður haldin í þrjúbíói Kvikmyndaklúbbsins Selkollu á sunnudaginn á Galdraloftinu. Hver er besti grínarinn – verðlaun í boði. Bæði má flytja gamanmálin á staðnum eða senda inn grínið í tölvupósti á dir@icef.is. Einnig verður svart-hvít gamanmynd með Charlie Chaplin sýnd.

Allir að senda inn grín og glens í dir@icef.is. Frekari upplýsingar á www.icef.is, dir@icef.is og í síma 866-1940.