25/11/2024

Strandamenn á hátíðardagskrá á Degi íslenskrar tungu

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu, verður í dag hátíðardagskrá í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Dagskráin fer fram í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í fyrirlestrasalnum Skriðu og hefst kl. 13:00. Strandamenn koma nokkuð við sögu á þessari dagskrá, en það eru nemendur á íslenskukjörsviði kennaradeildar Menntavísindasviðs sem standa fyrir hátíðardagskránni og er það í fyrsta skipti sem nemendur sjá um framkvæmd hennar. Fjölmargt verður í boði, söngur, leikur, upplestur og skemmtun. Athygli er vakin á því að dagskránni verður varpað yfir veraldarvefinn á vefslóðinni: http://sjonvarp.khi.is.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setur dagskrána. Meðal þeirra sem fram koma eru grunnskólanemar frá Grandaskóla sem sýna leikritið Tómas í nútímanum, um Tómas Guðmundsson borgarskáld og syngja lög eftir Tómas Guðmundsson. Sigurvegari úr stóru upplestrarkeppninni, Katrín Ósk Ásgeirsdóttir, frá Lækjaskóla verður með upplestur. Strandamaðurinn Bjarni Ómar Haraldsson, nemandi á íslenskukjörsviði á Menntavísindasviði, flytur tvö lög af nýútkominni plötu sinni, Fyrirheit. Þá munu nemendur Tónlistarskólans á Hólmavík, Anna Lena, Magnús, Daníel og Agnes, flytja frumsamið lag og texta.

Þá munu höfundarnir Jón Hallur Stefánsson og Hermann Stefánsson lesa úr jólabókum sínum. Kristbjörg Kari, íslenskukennaranemi, syngur frumsamin lög við ljóð Steins Steinarr. Baldur Hafstað prófessor flytur erindi um mikilvægi verndun íslenskrar tungu og slítur dagskrá.

Veitingasalan Baunin verður með íslenskar veitingar í tilefni dagsins. 

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is leit við á æfingu hjá nemendum Tónskólans fyrir athöfnina – og hlýddi á stórgott lag og  skemmtilegan texta þeirra Magnúsar og Daníels.