Fyrirhugað hafði verið að halda viðamikla Vestfjarðakynningu eða Atvinnuvegasýningu syðra nú í vor á vegum Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, en nú hefur verið hætt við allt saman. Kemur þar bæði til að erfitt reyndist að leigja heppilegt húsnæði undir kynninguna og eins var áhugi atvinnufyrirtækja annarra en ferðaþjónustuaðila ekki nægilegur. Var sýningin hugsuð með svipuðu sniði og hátíðin Perlan Vestfirðir sem haldin var í Perlunni í Öskjuhlíð vorið 2002 og tókst afburða vel.
Að sögn Arnars S. Jónssonar á Hólmavík, formanns Ferðamálasamtaka Vestfjarða, sem skipaður hafði verið í undirbúningsnefnd fyrir hátíðina, er þetta óheppilegt fyrir markaðssetningu vestfirskrar ferðaþjónustu. „Við Strandamenn höfum hins vegar oft á orði að það kemur dagur eftir annan dag," segir Arnar og bætir við að Vestfirðingar mæti efalaust tvíefldir til leiks árið 2006.