Enn hefur ekki verið gengið frá svæðinu ofan við bryggjuna á Hólmavík þar sem olíutankar stóðu áður, en þeir voru fjarlægðir í nóvember í fyrra. Bygginga- og skipulagsnefnd Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum 15. maí síðastliðinn að gengið yrði endanlega frá lóð Olíudreifingar og öll ummerki fjarlægð, en þá var eftir að fjarlægja lagnir og skipta um jarðveg og sá síðan í svæðið eða tyrfa. Var gerð sú krafa að þeirri vinnu yrði lokið fyrir 15. júní síðastliðinn, en þrátt fyrir þetta hefur engin breyting orðið á svæðinu. Var krafan ítrekuð á síðasta fundi nefndarinnar og í báðum tilvikum staðfest af sveitarstjórn.
Ókræsileg ummerki eftir olíutankana blasa við, á almannafæri, rétt neðan við grunnskólalóðina og ofan við aðalgötuna – ljósm. Jón Jónsson