Næstkomandi laugardag, 23. ágúst kl. 14:00, er fyrirhugað að afhjúpa minnisvarða og söguskilti um þrjú skáld við hátíðlega athöfn við Tjarnarlund í Saurbæ í Dölum. Þetta eru þeir Stefán frá Hvítadal, Stein Steinarr og Sturla Þórðarson. Eins og kunnugt eru tveir þeir fyrstnefndu af þessum köppum fæddir í Strandabyggð og í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu Steins Steinarrs og 75 ár frá andláti Stefáns frá Hvítadal. Staðsetning minnisvarðans sem gerður er af Jóni Sigurpálssyni á Ísafirði er valin með hliðsjón af því að frá staðnum sér heim að þeim þremur bæjum sem skáldin tengjast.
Það er Sögufélag Dalamanna sem stendur fyrir verkefninu og Sigurður Þórólfsson á frumkvæðið að því. Enn er unnið að fjármögnun verksins og er þeim sem hafa áhuga á að styrkja það bent á bankareikning félagsins 312-13-300900.
Steinn Steinarr fæddist á Laugalandi við Ísafjarðardjúp 13. okt.1908. Hann fór á öðru ári með móður sinni suður í Saurbæ og ólst þar upp, lengst af í Miklagarði. Hugur hans beindist snemma að skáldskap og fyrstu kvæði hans birtust á prenti upp úr 1930. Fyrsta ljóðabók hans, Rauður loginn brann, kom út í des.1934, en síðar komu bækurnar Ljóð, Spor í sandi, Ferð án fyrirheits og svo Tíminn og vatnið. Steinn lést 25. maí 1958.
Stefán frá Hvítadal fæddist á Hólmavík 11. okt. 1887. Hann var sonur Sigurðar kirkjusmiðs og Guðrúnar Jónsdóttur. Hann fór ársgamall í fóstur að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum og þaðan með fósturforeldrum sínum að Hvítadal þegar hann er 14 ára. 18 ára heldur hann út í lífið og dvelur eftir það lítið á Hvítadal. Hann fer til Noregs 1912 og kynnist þar norskum bókmenntum, en veikist af berklum og fer heim til Íslands 1915. Fyrsta ljóðabók hans, Söngvar förumannsins, kom út 1918 og olli byltingu í íslenskri ljóðagerð. Síðan koma ljóðabækurnar Óður einyrkjans, Heilög kirkja og loks Helsingjar. Stefán giftist 1919 Sigríði Jónsdóttur og eignuðust þau 10 börn. Stefán bjó síðustu 10 árin sín í Bessatungu. Hann lést 7. mars 1933.
Sturla Þórðarson var sonur Þórðar Sturlusonar og var Hvamms-Sturla afi hans. Sturla varð afkastamikill sagnritari, en mesta verk hans má eflaust telja Íslendingasögu sem segir ítarlega frá atburðum 13. aldar, átökum og gegndarlausri valdabaráttu. Sturla var einnig lögmaður nokkurt skeið en sagði sig frá því starfi og lifði í friði síðustu árin sín. Hann átti bú á Staðarhóli og bjó þar löngum, en síðustu árin bjó hann í Fagurey á Hvammsfirði og eftirlét Snorra syni sínum Staðarhól. Sturla fæddist 29. júlí 1214 og lést í Fagurey 30. júlí 1284. Hann var fluttur að Staðarhóli og jarðsettur þar að kirkju Péturs postula "sem hann hafði mesta elsku á".