22/11/2024

Árekstur, útafakstur og veltur á Ströndum

Í fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku kemur fram að fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Á mánudeginum fór bifreið út af veginum til Drangsnes, en bifreiðin skemmdist lítið. Á föstudeginum fór bifreið út af veginum í Hrútafirði. Þar voru erlendir ferðamenn um borð og misstu bifreiðina út af í lausamöl. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum. Umferðarslys varð í Staðardal á laugardaginn. Þar lentu vörubifreið og fólksbifreið saman og valt vörubifreiðin í kjölfarið. Farþegi úr henni var fluttur á Hólmavík til aðhlynningar en var ekki talinn mikið slasaður.

Þá valt jeppi á Hestakleif, upp af Mjóafirði við Ísafjarðardjúp. Ökumaður var einn í bifreiðinni og var hann fluttur til Ísafjarðar til skoðunar en var ekki talinn mikið slasaður. Þessu til viðbótar var tilkynnt um árekstur við Brjánslæk á Barðaströnd sem reyndist minniháttar. 

Í síðustu viku voru fimm ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum, fjórir þeirra voru á ferð um Ísafjarðardjúp, en einn var stöðvaður á 114 km hraða á Reykhólavegi í Barðastrandasýslu. Sá sem ók hraðast var mældur á 134 km hraða í Skötufirði.

Í þessari viku hafa lögreglumenn stöðvað 18 bifreiðar þar sem ökumenn eða farþegar hafa ekki verið með öryggisbeltin spennt. Þessir einstaklingar geta hver um sig átt von á sekt vegna þessa. Þá bera ökumenn ábyrgð á því að farþegar yngri en 15 ára noti öryggisbúnað og geta átt von á sektum ef misbrestur verður á.

Í vikunni var tilkynnt um tvö atvik í Bolungarvík þar sem stolið hafði verið handverkfærum frá verktökum sem þar eru við störf. Um helgina 11.-12. júlí var stolið verkfærum sem voru í eða við gám á Brimbrjótnum, en þar er verið að setja niður stálþil. Þá var nýlegum Dewalt rafmagns handverkfærum stolið frá þeim aðilum sem eru að setja upp steypustöð á Mávakambi í Bolungarvík.

Á föstudaginn fóru lögreglumenn með húsleitarúrskurði inn í hús á Reykhólum. Grunur lék á að þar væru ólögleg fíkniefni höfð um hönd. Notaður var fíkniefnaleitarhundur við leit í húsinu og fundust fjórar kannabisplöntur sem verið var að rækta, ásamt lítilræði af marihuana og neysluáhöldum. Einn aðili viðurkenndi að hafa átt plönturnar, áhöldin og efnin og var honum sleppt eftir yfirheyrslur.