22/11/2024

Enn verður bið á háhraðatengingum í dreifbýlinu

Eins og kunnugt er stóð til að opna tilboð í háhraðatengingar fyrir 1500 sveitabæi og fyrirtæki í dreifbýli nú í lok júlí, en nú hefur verið ákveðið að fresta því til 4. september. Verða því enn tafir á að þetta mikilvæga byggðamál og verkefni Fjarskiptasjóðs komi til framkvæmda, en samkvæmt Fjarskiptaáætlun 2005-2010 áttu landsmenn allir að njóta háhraðatengingar í árslok 2007. Verkefnið á að tryggja íbúum í dreifbýli háhraðanettengingar og tilheyrandi þjónustu til ársins 2014 hið minnsta og verða tilboð metin út frá m.a. hraða uppbyggingar, gagnaflutningshraða og tilboðsfjárhæð.

Um er að ræða 1500 staði samkvæmt ræðu Kristjáns Möllers núverandi samgönguráðherra á Alþingi snemma í febrúar. Nú er hægt að nálgast yfirlit yfir þessa staði á heimasíðu Ríkiskaupa undir þessum tengli, frá því snemma í júní. Áður hafði komið fram á heimasíðu Fjarskiptasjóðs og í auglýsingu frá honum að listi með upptalningu og staðsetningu á öllum þeim fasteigna sem þjónustan muni ná til yrði birt opinberlega fyrir útboðið. Ritstjóra strandir.saudfjarsetur.is er ekki kunnugt um að það hafi verið gert, en þetta var hugsað til að þess að "íbúar, fjarskiptafyrirtæki og hagsmunaaðilar gætu gert athugasemdir". Ekki er vitað hvort of seint er að gera athugasemdir nú, en í fljótu bragði sá ritstjóri nokkra staði í Strandabyggð sem vantar á listann.

Verkefnið felur í sér stuðning við uppbyggingu á háhraðanettengingum á lögheimilum í sveit með heilsársbúsetu og fyrirtækjum með starfsemi allt árið, þar sem háhraðanettengingar eru hvorki í boði né fyrirhugaðar á markaðslegum forsendum. Samkvæmt ræðu núverandi samgönguráðherra Kristjáns Möllers á Alþingi í febrúar er gert ráð fyrir að minnsta kosti 2 mb lágmarkshraða.