Strandagaldur hefur gefið út galdrabók sem heitir Tvær galdraskræður. Magnús Rafnsson sagnfræðingur á Bakka í Bjarnarfirði hefur tekið saman efnið í bókina og séð um útgáfuna. Bókin er bæði á íslensku og ensku þar sem íslenskan er prentuð á hægri síðu opnanna og ensk útgáfa á þeirri vinstri. Í bókinni Tvær galdraskræður eru prentaðar tvær skræður eftir handritum frá því um 1800, einni öld eftir að hætt var að sækja menn til saka fyrir galdra. Tvær galdraskræður er komin í sölu hjá Galdrasýningu á Ströndum og það er einnig hægt að panta hana í vefverslun sýningarinnar með því að smella hér.
Fyrra handritið í bókinni, Lbs 2413 8vo, er talið frá því um 1800 og bók með jafn mörgum galdrastöfum er ekki sett saman fyrr en alþýðufræðimenn undir lok aldarinnar fara að safna saman efni úr fleiri en einu handriti. Ekki er vitað hvar handritið er skrifað og heldur ekki hvernig það barst á Landsbókasafnið.
Handritið er 10 x 8 cm og alls í henni 74 blöð. Í handritaskrá Landsbókasafnsins er handritið sagt skrifað af einni og sömu höndinni og kallað rúna- og galdrakver. Engin dæmi um venjulegar rúnir finnast þó í bókinni, en þó nokkrar ókennilegar stafarunur. Bókin hefst á safni þjófagaldra og ástargaldra, en eftir það er engin sérstök röð á galdrastafaefninu fyrr en kemur að verndargöldrum. Loks eru í bókinni stefnur og særingar eins og fylgdu oft handritum af þessu tagi.
Síðara handritið, Lbs 764 8vo, er af allt öðru sauðahúsi. Það telur 14 blöð, 14 x 8,5 cm að stærð og talið skrifað um 1820. Utan um handritið er gamalt seðlaveski úr leðri, bryddað með grænu og með taubandi til að vefja utan um það. Innan á fyrsta blaðið er nafnið Kristján Sigurðsson en engar vísbendingar um hver hann var. Landsbókasafnið keypti handritið árið 1903 af Þorláki V. Reykdal. Árið áður hafði Þorlákur selt Landsbókasafninu aðra bók sem nefnd hefur verið galdrabók, Lbs 977 4to. Lítið fer fyrir galdrastöfum í þeirri bók, en hún inniheldur nokkur innsigli, stefnur og rúnaletur, en einnig töfraráð eða konstir.
Hægt er að skoða nokkrar síður úr bókinni með því að smella hér en í bókinni er að finna fjöldan allan af galdrastöfum sem hafa ekki birst fyrir almenningssjónum fyrr.
Tvær galdraskræður telur 263 blaðsíður og er prentuð í kiljuformi. Fjórar litprentaðar síður af handritunum er að finna í bókinni.
Þjóðhátíðarsjóður og Menningarráð Vestfjarða styrktu útgáfuna.