Helgi Ólafsson sigraði með glæsibrag á Minningarmóti Páls Gunnarssonar í Djúpavík nú um helgina. Helgi tapaði ekki skák og hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum. Björn Þorfinnsson var í öðru sæti með 7 vinninga og í 3.-5. sæti urðu Arnar E. Gunnarsson, Simon Bekker-Jensen og Henrik Danielsen með 6,5 vinning. Mótið var haldið í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík og var einstaklega skemmtilegt. Keppendur voru 53 og komu úr öllum áttum, börn og byrjendur, stórmeistarar og stórbændur.
Veitt voru verðlaun í fjölmörgum flokkum og varð Einar K. Einarsson efstur skákmanna með minna en 2200 stig. Björn Torfason bóndi á Melum varð efstur í 2 flokkum, heimamanna og stigalausra skákmanna. Svanberg Pálsson var efstur barna á grunnskólaaldri, annar var Nökkvi Sverrisson og þriðja Emma Kamilla Finnbogadóttir.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir varð efst kvenna. Hún gaf verðlaunafé sitt í söfnun til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum, sem missti hús sitt í stórbruna í byrjun vikunnar. Aðrir verðlaunahafar gáfu líka í söfnunina. Heiðursgestur mótsins var grænlenski pilturinn Paulus Napatoq. Hann er 16 ára, hefur verið blindur frá fæðingu og býr í afskekktasta þorpi Grænlands. Hann tefldi 5 skákir á mótinu í Djúpavík og fékk 3,5 vinning.
Á morgun, sunnudag, verður hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, nýju kaffihúsi Árneshrepps sem opnaði á þjóðhátíðardaginn. Mótið hefst kl. 12 og er öllum opið.
Minningarmót Páls Gunnarssonar, lokastaða
1.: Helgi Ólafsson, 8 vinninga
2.: Björn Þorfinnsson, 7 vinninga
3.-5.: Arnar Gunnarsson, Simon Bekker-Jensen, Henrik Danielsen, 6,5 vinning
6.-8.: Espen Lund, Guðmundur Kjartansson, Einar K. Einarsson, 6 vinninga
9.-11.: Magnús Gíslason, Hrannar Jónsson, Svanberg Már Pálsson 5,5 vinning
12.-20.: Róbert Harðarson, Jakob Fang Glud, Grímur Grímsson, Pétur Atli Lárusson, Hilmar Þorsteinsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Birgir Berndsen, Kjartan Guðmundsson, Páll Sigurðsson, 5 vinninga
21.-26.: Eiríkur Björnsson, Sigurður Sverrisson, Sverrir Unnarsson, Ingþór Stefánsson, Björn Torfason, Gunnar Nikulásson 4,5 vinning o.s.frv.
Vefsíða mótsins er á slóðinni www.hatid2008.blog.is.