22/11/2024

Jarðhitaleit styrkt á 29 stöðum

Heita vatnið kemur sér velOrkuráð úthlutaði nýlega 172 milljónum til jarðhitaleitar á 29 stöðum þar sem ekki nýtur hitaveitu og komu þrír styrkir til jarðhitaleitar á Ströndum. Úthlutunin er að mestu leyti liður í mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna skerðingar á þorskkvóta og gátu sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar sótt um. Þrjú verkefni á Ströndum fengu styrki, Árneshreppur fékk 5,8 millj., Kaldrananeshreppur fékk 4 millj. og Strandamaðurinn Magnús H. Magnússon fékk 8 millj. til jarðhitaleitar í Hveravík í Kaldrananeshreppi. Athygli vekur að jarðhitaleit í Strandabyggð er ekki styrkt, en fréttaritari veit reyndar ekki hvort sótt hafi verið um.

Á vef Iðnaðarráðuneytisins segir:

"Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra var viðstaddur afgreiðslu ráðsins og sagði við það tækifæri að þetta væri hin íslenska leið til þess að vinna sig út úr vanda sem meðal annars steðjar að vegna þorskaflabrests og hækkandi orkuverðs. Fjárfesting í innviðum og nýjum orkugjöfum búi í haginn fyrir framtíðina.

Átakinu er einnig ætlað að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar sem nýtist bæði íbúum staðanna og skattgreiðendum vegna minni niðurgreiðslna, og ennfremur verður jarðhitaleitin væntanlega til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýta betur raforku.

Reglur um styrki í sérstaka mótvægisátakinu eru meðal annars þær að ekki koma til greina aðrir staðir en þeir þar sem verulegur tekjumissur hefur orðið vegna skertra þorskaflaheimilda, styrkur getur numið allt að 75% heildarkostnaðar en er að hámarki 8 milljónir. Styrkirnir eru veittir með fyrirvara um að alþingi samþykki lokafjárveitingu til verkefnisins fyrir næsta ár, 50 m.kr. Reglur um styrki í almenna átakinu eru meðal annars að styrkur getur numið 50% heildarkostnaðar og er að hámarki 5 milljónir.

Umsóknir um styrki voru samtals 35, þar af 12 sem töldust almennar og 23 sérstakar mótvægisumsóknir. Af umsóknunum voru 29 samþykktar en sex var hafnað.

Þeir sem nú fá úthlutað í sérstaka mótvægisátakinu eru:

Árneshreppur – 5,8 m.kr.
Borgarfjarðarhreppur (Bf. eystri) – 5,0 m.kr.
Breiðdalshreppur – 8,0 m.kr.
Djúpavogshreppur – 8,0 m.kr.
Fjarðabyggð, fyrir Fáskrúðsfjörð – 7,5 m.kr.
Fjarðabyggð, fyrir Norðfjörð – 7,5  m.kr.
Fjarðabyggð, fyrir Reyðarfjörð – 7,5 m.kr.
Fjarðabyggð, fyrir Stöðvarfjörð – 7,5  m.kr.
Svf. Hornafjörður, fyrir Mýrar – 8,0  m.kr.
Svf. Hornafjörður, fyrir Suðursveit – 8,0 m.kr.
Svf. Hornafjörður, fyrir Öræfi – 8,0 m.kr.
Kaldrananeshreppur – 4,0  m.kr.
Langanesbyggð – 8,0 m.kr.
Magnús Magnússon, vegna Hveravík í Steingrímsfirði – 8,0 m.kr.
Norðurþing, fyrir Raufarhöfn – 8,0 m.kr.
Orkuveita Staðarsveitar, Snæfellsbæ – 8,0 m.kr.
Snæfellsbær, fyrir Hellissand – 6,7 m.kr.
Súðavíkurhreppur – 9,1 m.kr.*
Tálknafjarðarhreppur – 8,0 m.kr.
Vesturbyggð, fyrir Bíldudal og Patreksfjörð – 8,0 m.kr.
Vopnafjarðarhreppur – 8,0 m.kr.

Að auki fá þessir úthlutað í almenna leitarátakinu:

Arnór Heiðar Ragnarsson, vegna Bjarkarlundarhverfis – 5,0 m.kr.
Félagsbúið Björgum, Þingeyjarsveit – 0,5 m.kr.
Jón Benjamínsson, fyrir Fljótsdalshrepp – 2,0 m.kr.
Kjósarhreppur – 1,8 m.kr.
Mýrdalshreppur – 2,0 m.kr.
Skaftárhreppur – 0,5 m.kr.
Sveitarsetrið Draflastöðum, Fnjóskadal – 3,5 m.kr.

* Súðavíkurhreppur fær tvo styrki, annarsvegar úr mótvægisfé 2008, hinsvegar vegna umsóknar frá 2006.

Orkuráð starfar í tengslum við Orkustofnun og er meginhlutverk þess að sjá um rekstur Orkusjóðs, sem veitir áhættulán fyrir jarðhitaverkefnum og styrkir rannsóknir og fræðsluverkefni um endurnýjanlega orku, orkunýtingu og -sparnað. Iðnaðarráðherra skipar menn í ráðið og sitja þar nú Mörður Árnason, formaður, Bryndís Brandsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir."