22/11/2024

Grásleppuhrognin flutt sjóleiðis

Þungaflutningar úr og í Árneshrepp, nyrstu byggð Strandasýslu, hafa jafnan verið erfiðar frá hausti og oft langt fram á vor. Vegurinn er venjulega lokaður vegna snjóa mestan hluta vetrar og þegar fer að vora er ekki hægt að hleypa á hann umferð flutningabifreiða vegna aurbleytu og þar af leiðandi hættu á stórfelldum skemmdum á veginum. Nú hefur grásleppuvertíð staðið yfir og verkendur grásleppuhrogna þurfa að koma afurðum sínum til kaupenda. Þá eru góð ráð dýr, þegar ekki má fara með þungaflutninga um veginn.

Grásleppuhrognaverkendur á Norðurfirði hafa því brugðið á það ráð að flytja afurðir sínar með bát til Hólmavíkur til að koma þeim þar á flutningabíla. Í gær var verið að lesta bát í slíka ferð og voru meðfylgjandi myndir teknar þá. Þessi háttur er að nokkru leyti afturhvarf til fortíðar. Allt fram undir lok níunda áratugar liðinnar aldar voru nánast allar vörur í Árneshrepp fluttar úr skipi með smærri bátum og vörur sem senda átti úr hreppnum voru með sama hætti fluttar um borð í skip sem lá við festar á firðinum.

Þá bíður túnáburður bænda í Árneshreppi á Hólmavík, en þangað var hann fluttur með skipi. Fram til þessa hefur áburðinum verið landað á Norðurfirði og dreift þaðan til bænda. Nú fékkst það ekki og því var áburðinum landað á Hólmavík. Eins og útlitið er verður hann tæplega fluttur landleiðina í Árneshrepp næstu vikurnar. Því var tekið fullfermi af áburði með bátnum til baka frá Hólmavík.

bottom

frettamyndir/2008/580-flutningaskip2.jpg

Grásleppuhrognin hífð í bátinn á Norðurfirði – ljósm. Þórólfur Guðfinnsson