22/11/2024

Hreinsunarátak í Strandabyggð

Allt í röð og regluÍ tilkynningu frá sveitarfélaginu Strandabyggð kemur fram að helgina 23. -25. maí mun Strandabyggð standa fyrir hreinsunarátaki með íbúum sveitarfélagsins. Hugmyndin mun vera sú að íbúar Strandabyggðar taki höndum saman við fegrun og snyrtingu þannig að ásýnd sveitarfélagins verði til fyrirmyndar fyrir sumarið. Eru íbúar Hólmavíkur sérstaklega hvattir til að hafa samráð í hverju hverfi um hvað má fegra og bæta. Starfsmenn áhaldahúss munu ekki láta sitt eftir liggja og hirða rusl og garðaúrgang sem er settur út við lóðamörk um og eftir helgina, en benda á að mikilvægt sé að halda öllu járnarusli sér.

Íbúar í dreifbýli geta haft samband við starfsmenn áhaldahúss vegna hreinsunarátaksins, þó ekki sé reiknað með að sækja rusl í miklu magni á sveitabæi. Eigendur fyrirtækja og stofnana eru einnig hvött til að taka þátt í átakinu og koma úrgangi sjálfir á viðeigandi stað í samráði við starfsmenn áhaldahúss, en í þá má ná í símum 861-4806 og 894-4806.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur alla íbúa Strandabyggðar eindregið til að láta hendur standa fram úr ermum og hafa gaman af, það er ekki vanþörf á að hreinsa dálítið til í heiminum.