22/11/2024

Dyttað að Hallvarðsbúð

Ljósm. af www.123.is/dagrenningUm síðustu helgi fóru félagar úr Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík norður í Skjaldabjarnarvík sem var áður nyrsta býlið í Árneshreppi og þar með Strandasýslu. Þetta kemur fram á vef Dagrenningar á slóðinni www.123.is/dagrenning. Verkefni ferðarinnar var að laga neyðarskýlið sem sveitin sér um þar í víkinni, en það nefnist Hallvarðsbúð eftir Hallvarði Hallssyni sem bjó í Skjaldabjarnarvík á 18. öld en um hann má fræðast á Vestfjarðavefnum

Lagt var af stað frá Rósubúð á Hólmavík klukkan átta að morgni og haldið upp á Steingrímsfjarðarheiði. Þaðan var ekið á fjórum jeppum á Drangajökul að Hrollleifsborg og þaðan niður í Skjaldabjarnarvík. Sleðarnir sem voru fimm, tóku stefnuna neðan við jökulinn og þaðan í víkina. Sleðamennirnir tóku með sér verkfæri og voru búnir að vera djúga stund við vinnu þegar jeppamennirnir komu að um tvöleytið.

Þar með var komið á staðinn timbur sem þurfti, til að setja nýja ytri hurð á skýlið og fleira. Um fjögurleytið var lagt af stað heim aftur og komið til Hólmavíkur um mitt kvöldið. Lauk þar með fínni vinnuferð en næst er stefnt er að því að fara aðra ferð í júní og þá sjóleiðina og mála Hallvarðsbúð.