22/11/2024

Verbúð breytt í kaffihús

Sveitarfélagið Árneshreppur er nú að láta breyta verbúð í Norðurfirði í kaffihús og matsölustað. Í húsinu verður sem áður aðstaða útibús Sparisjóðs Strandamanna í Norðurfirði sem er í öðrum enda hússins. Eins verður áfram aðstaða fyrir lækni með eitt herbergi, þegar hann kemur í vitjanir. Þá verða tvö herbergi fyrir sjómenn eða aðra útleigu, með aðstöðu til eldunar og setustofu. Sú aðstaða minnkar verulega, enda hefur sjómönnum sem landa í Norðurfirði og leigja þar herbergi fækkað verulega undanfarin ár.

 Hinn nýi veitingasalur snýr að höfninni eða til sjávar og verður fallegt útsýni þaðan. Salurinn á að taka 40 manns í sæti, þar verður mjög góð eldunaraðstaða, stórt og mikið eldhús með öllum nútíma þægindum, ásamt snyrtingum og fleiru.

Að sögn Oddnýjar S. Þórðardóttur, oddvita Árneshrepps verður stefnt að því að opna kaffstofuna í júní næstkomandi og einnig verður auglýst fljótlega eftir rekstraraðilum til að reka kaffihúsið á sumrin og eftir þörfum utan háannatíma. Nú undanfarið hafa iðnaðarmenn verið að vinna á fullu við breytingarnar á verbúðinni, en yfirsmiður er Páll Pálson frá Reykjarfirði.

 bottom

frettamyndir/2008/580-kaffihus.jpg

Iðnaðarmenn að störfum – Ljósm.  Jón G.G.