22/11/2024

GSM símasamband kannað í Árneshreppi

Flugstöðin Gögri - ljósm. Jón G.G.Á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is í Árneshreppi segir frá því að eftir að frétt um að Vodafone hefði sett upp langdrægan sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd birtist á strandir.saudfjarsetur.is, hafi nokkrir í sveitinni verið að prufa hvar næðist símasamband. Í gær voru flugmennirnir sem voru lengi á Gjögurflugvelli vegna bilunarinnar á flugvélinni, með GSM síma. Annar var með síma frá Símanum og var sá sími dauður, en hinn flugmaðurinn var með síma frá Vodafone og á þeim síma var fullur styrkur á flugvellinum og var sá sími mikið notaður.

Oddný Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps, segir að á Krossnesi og við Krossneslaug sé gott samband og þá eflaust líka á Felli. Að sögn Oddnýjar næst hins vegar ekki samband við Kaupfélagið eða annars staðar í Norðurfirði. Þá er sambandslaust í Ávíkunum og í Trékyllisvík, en ekki vitað með Mela. Djúpavík er örugglega sambandslaus, en ekkert hefur verið athugað inn með Reykjarfirði og lengra inneftir.

Símasamband er á Gjögurflugvelli og þá er örugglega gott samband niður á Gjögri og inn fyrir Kjörvog í Reykjarfirði og eins norður í Reykjaneshyrnu við svonefnt Reiðholt (þar sem símaskúrinn er).

Jón G. Guðjónsson fréttaritari er með GSM síma frá Símanum og hefur ekkert getað prufað, því eðlilega kunna menn ekki við að hringja í neyðarlínuna til að prufa, þó að allir símar eigi að geta náð í hana.