22/11/2024

Fordómar og Leonardó-umsóknir

Í hádeginu í dag verður fyrsta Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða á þessu ári og verður það sent út í fjarfundi í Grunnskólanum á Hólmavík. Gestur í fyrsta Vísindaporti ársins er Elísabet Brekkan leikhúsfræðingur og leiklistarkennari og talar hún um fordóma. Í fyrirlestri sínum segir Elísabet frá fólki sem hún hefur kynnst á tuttugu ára ferli sínum í útlendingakennslu bæði á Íslandi og eins í Svíþjóð. Hún varpar fram nokkrum andstæðum og spyr spurninga um það sem líkt er og ólíkt og hvort fordómar stafi af þekkingarleysi eða séu einfaldlega hluti af húmor og hegðun. Einnig verður námskeið í gerð Leonardó-umsókna um mannaskipti og samstarfsverkefni haldið í fjarfundi í Grunnskólanum á Hólmavík í dag kl. 13-15. Námskeiðið er á vegum Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og er opið öllum.