Skákfélagið Hrókurinn hélt skákmót í félagsheimilinu í Árnesi Trékyllisvík í dag, laugardaginn 5. janúar. Tefldar voru 7 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Teflt var á 8 borðum og voru 16 þátttakendur, tveir gestir frá Hólmavík tefldu. Úrslit urðu þau að Hrafn Jökulsson var með allar 7 skákirnar unnar, en tók ekki við verðlaunum sem skákstjóri Hrókssins. Ingólfur Benediktsson í Árnesi 2 var með 6 unnar skákir af 7 mögulegum og hlaut fyrsta vinning. Björn Torfason á Melum I hlaut annan vinning með 5 skákir, síðan voru margir með fjórar unnar skákir af 7 mögulegum. Þetta kemur fram á www.litlihjalli.it.is.