22/11/2024

Hefðu átt að tilkynna breytingu til Skipulagsstofnunar

Í viðtali við Svæðisútvarp Vestfjarða í dag sagði Magnús Valur Jóhannsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á norðvestursvæði, að eftir á að hyggja hefði eflaust verið réttara að tilkynna Skipulagsstofnun um breytingu á veglínunni um Gautsdal. Á vef ruv.is er haft eftir Magnúsi að oftast verði einhverjar breytingar í endanlegu hönnunarferli og í þessu tilfelli hafi menn talið að breytingarnar væru ekki það miklar að það þyrfti að tilkynna þær. Skipulagsstofnun sé einfaldlega annarrar skoðunar. Mat manna hjá Vegagerðinni hafi verið að færslan væri vegtæknilega betri lausn og þeir hafi talið að þetta hefði engin önnur áhrif en hin línan varðandi umhverfisáhrif, en sé mun betri veglína út frá vegtæknilegu sjónarmiði.

Umræða þessi er í kjölfar þess að Skipulagsstofnun svaraði nú í desember erindi Reykhólahrepps, þar sem óskað var eftir áliti stofnunarinnar um hvort færsla á veglínu í gerð nýja vegarins um Arnkötludal í Gautsdal hafi verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun sagði í svari til hreppsins að Vegagerðinni hefði átt að vera ljóst að henni bæri að tilkynna þessar breytingar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu. Á einum kafla víkur veglínan í tvígang um allt að 250 metra og víða á bilinu 50-200 metra.

Ekki er enn ljóst hvað gerist í framhaldinu, því það hlýtur að teljast ólíklegt að hægt sé að virða Skipulagsstofnun að vettugi og fara sínu fram án lögbundins samráðs við stofnunina.