25/11/2024

Vegagerðarmenn fá afhenta birtu jólanna

Ferðaþjónustuklasinn Arnkatla 2008, sem eru samtök ferðaþjónustaðila á Ströndum og í Reykhólasveit, færði vegagerðarmönnum sem vinna að gerð vegarins um Arnkötludal jólaljósin í gær. Athöfnin fór fram í Vogalandi í Króksfjarðarnesi þar sem vinnuflokkurinn hefur búðir sínar. Eftir að húsið hafði verið skreytt ljósum að utan var haldin lítil jólahátíð innandyra. Þar komu fram Sigurður Atlason í gerfi jólagaldrasveins, sem er eins konar afkvæmi jólasveins og galdramanns, og Stefán Jónsson tónlistarmaður á Hólmavík, sem flutti nokkur vel valin jólalög. Allir vegagerðarmennirnir mættu á hátíðina auk nokkurra ferðaþjónustuaðila beggja vegna heiðar.

Í máli Sigurðar kom m.a. fram að heimamenn væntu mikils af framkvæmdinni og að starfsmenn Ingileifs Jónssonar væru miklir aufúsugestir á svæðinu. Það var vel tekið á móti fulltrúum Arnkötlu 2008 í Vogalandi í gær og vegagerðarmennirnir buðu upp á gómsæta íslenska kjötsúpu eftir dagskráratriðin. Hinn góðkunni fréttamaður Sjónvarps, Gísli Einarsson, var einnig á svæðinu og myndaði jólagleðina í bak og fyrir og mun afraksturinn birtast í fréttatíma Sjónvarps seinna í vikunni.

Matthías Lýðsson var með myndavélina á lofti og smellti af meðfylgjandi myndum frá hátíðinni.

Jólagaldrasveinn

frettamyndir/2007/580-arnkatla-vogaland3.jpg

frettamyndir/2007/580-arnkatla-vogaland4.jpg

frettamyndir/2007/580-arnkatla-vogaland1.jpg