22/11/2024

Strandamenn á Stíl 2007

Undirbúningur er hafinn fyrir keppnina Stíll 2007, en þar keppa félagsmiðstöðvar sín á milli í hárgeiðslu, förðun og fatahönnun. Samfés stendur fyrir keppninni sem haldin er laugardaginn 17. nóvember, frá klukkan 15:00 til 21:00, í Íþróttahúsinu Smáranum í Kópavogi. Í hverju liði mega vera 2-4 einstaklingar, þar af eitt módel. Í liði Ozon á Hólmavík eru Silja Ingólfsdóttir, Sylvía Bjarkadóttir, Birna Karen Bjarkadóttir og Dagrún Ósk Jónsdóttir og er undirbúningur hafinn. Þema keppninnar í ár er íslenskar þjóðsögur og eiga liðin að vinna út frá því. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is rak inn nefið í vinnustofu Þúfu á Hólmavík um helgina þegar tveir liðsmenn voru að viða að sér efni í búninginn og sögðust ætla að vinna með fjöruna og óvætti sem í hafinu búa.

Silja og Dagrún, en á myndina vantar tvo þátttakendur, Birnu Karen og Sylvíu. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is mun sýna myndir frá keppninni sjálfri þegar þar að kemur – ljósm. Jón Jónsson