24/11/2024

Strandavegur á lista yfir útboðsverk

Vegabætur á Strandavegi frá Djúpvegi í Staðardal að Drangsnesvegi við vegamótin yfir Bjarnarfjarðarháls eru nú komnar á lista yfir fyrirhuguð útboð hjá Vegagerðinni. Er verkið merkt þannig að það verði boðið út á þessu ári, en þessi 6,5 km vegur er eitt af þeim flýtiverkefnum í vegagerð sem ríkisstjórnin ákvað að ráðast í vegna niðurskurðar í þorskveiðum. Stóð þá til að verkinu yrði að mestu lokið árið 2009, en Strandamenn vonast til að þetta þýði að verklok verði ári fyrr, enda er ekki um langan veg að ræða og engin sjáanleg vandræði við vegagerðina. Vegurinn liggur milli Hólmavíkur og Drangsness, en um áratugur er síðan sambærilegum vegabótum lauk á milli allra annarra nálægra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum.

Ekki er öruggt að verkefni verði fljótlega boðin út þótt þau rati á þennan lista og er nærtækast að benda á vegagerð um Hrútafjarðarbotn sem stóð til að bjóða út á síðasta ári en enn hefur ekki verið boðin út. Þær vegabætur ættu þó að fara að nálgast því samkvæmt lögbirtingablaði hefur ráðuneyti nú í júlí staðfest breytingar á aðalskipulagi í Bæjarhreppi og Húnaþingi vestra.