Á vef Sjávarútvegsráðuneytis kemur fram að eitt sveitarfélag hefur gert tillögur um sérstök skilyrði um úthlutun byggðakvóta til viðbótar við hin almennu skilyrði og reglur ráðuneytisins (reglugerð 439/2007). Þetta sveitarfélag er Kaldrananeshreppur og viðbótarskilyrðið er að byggðakvóta sé úthlutað til þeirra báta sem hafa landað á Drangsnesi frá 1. sept. 2006 til 31. mars 2007 í hlutfalli við landaðan afla. Í rökstuðningi kemur fram að sveitarstjórn Kaldrananeshrepps telur að með þessu ákvæði sé verið að styrkja aðila sem hafi þar heilsársbúsetu og hvetja útgerðarmenn til að gera út allt árið.
Einnig er með þessu móti komið til móts við þá sem leigja til sín kvóta í stórum stíl og skapa með því aukna atvinnu og hagsæld í byggðarlaginu, segir í rökstuðningi. Þá styrkir og styður þetta ákvæði fiskvinnsluna á Drangsnesi, en aflinn er betri til vinnslu yfir vetrartímann.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar var ákvörðun um úthlutun byggðakvóta og hugsanlegar viðbótarreglur frestað til aukafundar sem haldinn verður á morgun, þann 1. júní, eins og fram kemur í fundargerð.