22/11/2024

Vestfjarðanefndin hefur skilað af sér

Nú hefur hin svokallaða Vestfjarðarnefnd sem starfaði á vegum Forsætisráðuneytis og Iðnaðarráðuneytis skilað af sér skýrslu með tillögum um eflingu atvinnulífs í fjórðungnum. Fjöldi tillagna um beinar aðgerðir er þar settur fram og má nálgast skýrsluna í heild sinni hér á strandir.saudfjarsetur.is undir þessum tengli og fréttatilkynning Forsætisráðuneytis er einnig birt hér að neðan. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is er ekki fullljóst hvað gerist næst og hvort líta eigi þannig á að hér sé um að ræða tillögur sem búið er að ákveða af ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd, en ráðherrarnir hljóta að skýra stöðu mála fljótlega ef þeir eru ekki þegar búnir að því.

Fréttatilkynning Forsætisráðuneytis er svohljóðandi:

"Nefnd sem forsætisráðherra skipaði þann 15. mars 2007 til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum hefur lokið störfum og skilað skýrslu með margvíslegum tillögum.

Stjórnvöld og fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum til uppbyggingar á Vestfjörðum. Í því sambandi má nefna stofnun háskólaseturs og þróunarseturs á Ísafirði og gerð Vaxtarsamnings Vestfjarða til aukinnar samkeppnishæfni og sóknar. Aðstæður til atvinnu og búsetu hafa verið greindar og framtíðarsýn íbúaþróunar er að fyrir árið 2020 verði íbúatala Vestfjarða um 8.300.

Atvinnulíf og búseta á Vestfjörðum stendur nú á ákveðnum tímamótum. Stjórnvöld hafa ákveðið að verja á næstu fjórum árum allt að 13 milljörðum króna til framkvæmda við vegi, fjarskipti og snjóflóðavarnir. Tillögur nefndarinnar miða að því að leggja til við stjórnvöld að blása ungu fólki, sem og öllum Vestfirðingum í brjóst aukna bjartsýni á möguleika svæðisins til búsetu og atvinnuuppbyggingar með því að efla starfsemi opinberra stofnana m.a. á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar sem í samvinnu við fyrirtækin á svæðinu geti snúið við atvinnuþróuninni til aukinnar verðmætasköpunar. Helstu tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:

# Við endurskoðun framkvæmda í samgönguáætlun á árinu 2008 verði áhersla lögð á að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum á Vestfjörðum sem nú eru á langtímaáætlun samgöngumannvirkja.
# Uppbyggingu GSM-farsímaþjónustu á öllum stofnvegum og uppbyggingu háhraðatengingar á afskektum svæðum á Vestfjörðum verði lokið á árinu 2008.
# Stjórnvöld efli verulega starfsemi núverandi opinberra stofnana á svæðinu. Áhersla verði lögð á aukna rannsóknarstarfsemi sem stuðli að nánu samstarfi og samvinnu fyrirtækja og stofnana á svæðinu.
# Háskólasetur Vestfjarða hafi forystu um að marka sameiginlega rannsóknaráætlun, efla erlent samstarf og undirbúa umsóknir í innlenda og erlenda rannsóknarsjóði. Háskólasetrinu verði jafnframt tryggt fjárhagslegt bolmagn til að hefja staðbundið háskólanám á sviði tengdu sérstöðu svæðisins í samstarfi við innlenda eða erlenda háskóla.
# Nemendum verði gert kleift að geta lokið verknámi með sveinsprófi við Menntaskólann á Ísafirði í vélsmíði og rafvirkjun auk trésmíði. Leitað verði samstarfs við starfandi fyrirtæki á svæðinu í þessum greinum.
# Lögð verði áhersla á að auðvelda nýsköpun á meðal frumkvöðla og eflingu atvinnulífs í fjórðungnum m.a. með stofnun og rekstri nýsköpunarmiðstöðvar Impru á Ísafirði í samvinnu með Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Þá verði byggðar upp miðstöðvar á sviði menntunar, rannsókna, nýsköpunar og þjónustu á Patreksfirði og Hólmavík með líkum hætti og Þróunarsetur Vestfjarða á Ísafirði.
# Því er beint til fjármálaráðherra að hann beiti sér fyrir sameiningu Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins með höfuðstöðvar á Ísafirði og útibú í öðrum landshlutum.
# Starfsemi sýslumannsembættanna á Ísafirði, Bolungarvík og Patreksfirði verði efld með því að færa verkefni þangað sem nú er sinnt með öðrum hætti.
# Því er beint til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að hún beiti sér fyrir því að starfsemi 
Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði flutt til Vestfjarða.
# Komið verði á fót miðstöð safnaskráningar á Ísafirði þar sem m.a. fari fram skráning fyrirhugaðs öryggismálasafns Þjóðskjalasafns Íslands og fyrirhugaðs Landskerfis safna sem verði skráningarkerfi fyrir söfn á sviði menningarminja, þ.m.t. bókasöfn.
# Starfsemi heilbrigðisstofnana Ísafjarðarbæjar og Patreksfjarðar verði efld. Áhersla verði lögð á að samþætta heimahjúkrun við heimaþjónustu sveitarfélaga og auka geðheilbrigðisþjónustu og öldrunarlækningar.
# Lagt er til að Fræðslumiðstöð Vestfjarða taki að sér námskeið í íslensku fyrir útlendinga á Vestfjörðum og einstaklingsmiðaða náms- og starfsráðgjöf fyrir fólk á vinnumarkaði með litla grunnmenntun á grundvelli þjónustusamnings menntamálaráðuneytis við ASÍ og SA (sjá nánar tillögur 32 og 33 í viðauka I).
# Unnin verði sérstök áætlun fyrir Vestfirði með tillögum til að draga úr tíðni straumrofa á Vestfjörðum.
# Gerður verði samningur til fjögurra ára milli samgönguráðuneytis og Markaðsskrifstofu Vestfjarða um markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu með áherslu á Vestfirði.
# Lagt er til að starfræktar verði tvær gestastofur í friðlandi á Vestfjörðum, Hornstrandastofa og Vatnsfjarðar-/Látrabjargs­stofa, þar sem verði starfandi landverðir í heilsársstarfi. Áhersla verði á að sinna markaðssetningu og skipulagi ferðamennsku innan friðlandanna á vetrartímum.
# Starfsemi Fjölmenningarsetursins verði efld og því falin verkefni sem unnin eru á landsvísu.
# Einkaaðilar verði fengnir til að koma til liðs við stjórnvöld og sveitarfélög á Vestfjörðum um frekari uppbyggingu skíðasvæðisins í Tungudal til að takast á við nýja tíma og breyttar kröfur.

Þá skoðaði nefndin áhrif þess á starfsemi rækjuvinnsla að frysta greiðslu afborgana og vaxta lána þeirra hjá Byggðastofnun í 5 ár. Nefndin telur ástæðu til að skoða áhrif þessa nánar og afla betri upplýsinga um afkomuhorfur í greininni. Einnig barst nefndinni rökstudd tillaga frá Íslenskum hátækniiðnaði um byggingu nýtísku olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum. Nefndin beinir því til sveitarstjórna á Vestfjörðum að taka þá tillögu til nánari skoðunar.

Nefndin gerði tilraun til að leggja lauslegt mat á kostnað við að koma tillögum um aukna þjónustu og fjölgun starfa í framkvæmd. Gróft áætlað má gera ráð fyrir því að þær 37 tillögur sem er að finna í viðauka I feli í sér allt að 80 ný störf á Vestfjörðum sem kalla myndi á viðbótarkostnað upp á rúmlega 500 m.kr. á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda."