22/11/2024

Leikskólinn Lækjarbrekka með nýja heimasíðu

Sífellt er að bætast í hóp þeirra fyrirtækja og stofnana sem koma sér upp heimasíðu á netinu. Stofnanir á Ströndum eru engin undantekning, og nú hefur leikskólinn Lækjarbrekka á Hólmavík opnað heimasíðu þar sem hægt er að lesa helstu fréttir og tilkynningar frá starfsmönnum ásamt því að skoða myndir úr skólastarfinu eftir því sem segir í fréttatilkynningu. „Tilgangurinn er að leyfa foreldrum og öðrum aðstandendum barnanna að fylgjast með hvað verið er að vinna með á Lækjarbrekku. Þarna verður líka hægt að nálgast matseðil mánaðarins og aðrar hagnýtar upplýsingar“, sagði Hildur Guðjónsdóttir, starfsmaður og vefsíðusmiður á Lækjarbrekku, í samtali við strandir.saudfjarsetur.is.

„Við stefnum að því að setja inn nýjar myndir í hverri viku. Þar sem allir foreldrar voru samþykkir því að birta ljósmyndir af börnum sínum með þessum hætti höfum við líka ákveðið að læsa ekki síðunni til þess að fleiri t.d. ömmur og afar, frændfólk, vinir og aðrir í kringum okkur geti skoðað hvað við erum að bralla. Það eru nefnilega svo kátir og skemmtilegir krakkar á Lækjarbrekku!“

Vefslóðin á heimasíðu leikskólans Lækjarbrekku er www.123.is/laekjarbrekka.

 

Ljósm. Hildur Guðjónsdóttir