Auglýsingin frá Vegagerðinni um útboð á endurlögn Drangsnesvegar (645) um Selströnd í Steingrímsfirði í Kaldrananeshreppi ásamt gerð tilheyrandi tenginga er núna komin á vefinn. Vegarkaflinn er alls 7,58 kílómetra langur milli Hálsgötu þar sem vegamótin yfir Bjarnarfjarðarháls eru og heimreiðarinnar að Kleifum á Reykjanesi. Þrátt fyrir þetta verkefni verður enn ekki komið bundið slitlag á milli Drangsness og Hólmavíkur. Eftir stendur kaflinn frá vegamótum Strandavegar (643) og Djúpvegar (61) í Staðardal að vegamótum Strandavegar (643) og Drangsnesvegar (645) við Hálsgötugil sem er um 7 kílómetrar.
Verkefninu skal að fullu lokið 1. nóvember 2007 og útlögn klæðningar skal að fullu lokið 1. september 2007, en fram kom í frétt í morgun að fjárveitingu til verksins væri skipt á árin 2007 og 2008.
Helstu magntölur eru:
Fylling og fláafleygar | 4800 | m3 |
Efnisvinnsla | 17500 | m3 |
Neðra burðarlag | 6000 | m3 |
Efra burðarlag | 11300 | m3 |
Klæðing | 49500 | m2 |
Frágangur fláa | 61200 | m3 |
Rofvarnir | 3000 | m3 |
Útboðsgögn verða seld hjá Vegagerðinni, Dagverðardal á Ísafirði og Borgartúni 7 í Reykjavík (móttaka) frá og með mánudeginum 16. apríl 2007. Verð útboðsgagna er 4.000 kr. Skila skal tilboðum á sömu stöðum fyrir kl 14:00 miðvikudaginn 2. maí 2007 og verða þau opnuð þar kl. 14:15 þann dag.