Samkvæmt fréttum rúv.is af nýjum þjóðarpúlsi Gallup er hið pólitíska landslag í Norðvesturkjördæmi nú þannig að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin, grænt framboð eru með svipað fylgi. Átta þingmenn eru kjördæmakjörnir og fengi Sjálfstæðisflokkur þrjá þeirra ef kosið yrði nú (29,9%), en Vinstri grænir tvo (29,3%). Samfylking er einnig með tvo þingmenn (20%) og Framsókn einn (12%). Samkvæmt útreikningum fréttastofu RÚV næðu Frjálslyndir síðan í níunda þingsætið sem stendur til boða (7,3%), uppbótar- eða jöfnunarsætið sem byggir að hluta til á atkvæðum sem falla dauð í öðrum kjördæmum. Frjálslyndi flokkurinn er þó nokkuð frá því að þeirra maður sé næstur inn kjördæmakjörinn.
Samkvæmt útreikningum strandir.is yrði röð þingmannanna þessi ef þetta yrði niðurstaða kosninganna:
1. Sturla Böðvarsson – 1. maður hjá Sjálfstæðisflokki
2. Jón Bjarnason – 1. maður hjá Vinstri grænum
3. Guðbjartur Hannesson – 1. maður hjá Samfylkingu
4. Einar K. Guðfinnsson – 2. maður hjá Sjálfstæðisflokki
5. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir – 2. maður hjá Vinstri grænum
6. Magnús Stefánsson – 1. maður hjá Framsókn
7. Karl V. Matthíasson – 2. maður hjá Samfylkingu
8. Einar Oddur Kristjánsson – 3. maður hjá Sjálfstæðisflokki
_________________________________________________
9. Björg Gunnarsdóttir – 3. maður hjá Vinstri grænum
10. Herdís Þórðarsdóttir – 4. maður hjá Sjálfstæðisflokki
11. Ásmundur Daðason – 4. maður hjá Vinstri grænum
12. Guðjón A. Kristjánsson – 1. maður hjá Frjálslyndum
Sáralitlu munar á atkvæðafjölda á bak við annan mann Samfylkingar, þriðja mann Sjálfstæðisflokks og þriðja mann Vinstri grænna.
Samkvæmt þessu yrðu þingmenn Norðvesturkjördæmis eftir næstu kosningar þeir Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson úr Sjálfstæðisflokki, Jón Bjarnason og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir úr Vinstri grænum, Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson úr Samfylkingu, Magnús Stefánsson úr Framsóknarflokki og Guðjón Arnar Kristjánsson úr Frjálslynda flokknum. Ef niðurstaðan yrði þessi eru 8 karlar á þingi fyrir kjördæmið og 1 kona.
Í heildina á landsvísu fengi Sjálfstæðisflokkurinn 25 þingmenn samkvæmt könnuninni, tveimur fleiri en í síðustu kosningum. Fjöldi þingmanna Vinstri grænna myndi meira en þrefaldast frá síðustu kosningum, þeir eru 5 á yfirstandandi þingi en yrðu 17 ef kosið yrði í dag. Samfylkingin tapaði 7 mönnum og fengi 13. Framsóknarflokkurinn tapaði einnig 7 mönnum og fengi 5, minna en helminginn af kjörnum þingmönnum árið 2003. Loks fengi Frjálslyndi flokkurinn 3, einum færri en í síðustu kosningum.
Rétt er að benda á að hinn nýi flokkurinn sem hlotið hefur nafnið Íslandshreyfingin hefur boðað framboð í öllum kjördæmum, en listar ekki verið kynntir. Þá hefur framboð eins hóps eldri borgara og öryrkja verið boðað í samvinnu við Höfuðborgarsamtökin. Þetta á væntanlega allt saman eftir að setja eitthvert strik í reikninginn, ásamt því hvernig kosningabaráttan þróast.