22/11/2024

Er ekki einhver með lag í smíðum?

Undanfarin ár hefur Ungmennafélag Reykdæla í Borgarfirði staðið fyrir dægurlagakeppni og nýtur hún sífellt meiri vinsælda. Átta lög hafa keppt til úrslita en í keppnina hafa verið að berast allt upp í 26 lög víðsvegar af landinu og eru Strandamenn sérstaklega hvattir til að taka þátt að þessu sinni. Keppnin hefur ætíð verið haldin í tengslum við Gleðifund ungmennafélagsins í nóvember, en að þessu sinni var ákveðið að dægurlagakeppnin yrði sjálfstæður viðburður og fer hún fram í Logalandi í Reykholtsdal þann 18. apríl.

Stuðbandalagið er húsbandið í keppninni og sjá þeir um undirleik og æfingar fyrir  keppendur sem þess óska. Keppnisgjald er ekkert að þessu sinni og vegleg verðlaun í boði.

Fólk um land allt og líka á Ströndum er hvatt til að senda inn lög í keppnina. Lögin þurfa að berast á diski eða hljómsnældu fyrir 16. mars til Emblu Guðmundsdóttur, Björk, 320 Reykholt. Lögum þarf að skila undir dulnefni en rétt nafn höfundar ásamt símanúmeri þarf að fylgja með í lokuðu umslagi. Skilyrði fyrir þátttöku er að lögin séu frumsamin, með íslenskum texta og hafi ekki verið flutt opinberlega áður. Nánari upplýsingar eru veittar í símum 691-1182 og 699-4695.