22/11/2024

Eldri borgarar á Ströndum í útrás

Félagsmiðstöð eldri borgaraFélag eldri borgara á Ströndum er að fara í vikuferð til Skotlands 24.-29. apríl næstkomandi. Þátttaka er til fyrirmyndar en 32 eru bókaðir í ferðina og eru fararstjórar Arnlín á Bakka og Halla á Svanshóli. Ekið verður um skosku hálöndin og síðustu dagana dvalið í Edinborg. Undirbúningur er á fullu og er mikil tilhlökkun í hópnum. Sumarferð félagsins verður síðan 20.-21. júní og þá verður Skagafjörðurinn heimsóttur. Fullbókað er í þá ferð, en fólk getur skráð sig á biðlista, ef einhver kemst ekki með þegar þar að kemur. Nýjasta hugmyndin er að fara í vikuferð til Frakklands í nóvember með Matthíasi stórkokk og hótelhaldara á Laugarhóli sem fararstjóra. Sú ferð verður öllum Strandamönnum opin og auglýst síðar.