25/11/2024

Strandamaður ársins – seinni umferð

Nú er komið að seinni umferðinni í kosningu á Strandamanni ársins 2006 og hitnar þá heldur betur í kolunum. Um það bil 20 einstaklingar voru tilnefndir í fyrri umferð, en þátttaka var reyndar frekar dræm. Í seinni umferð er kosið á milli þeirra sem lentu í þremur efstu sætunum og reyndust það vera Arnar S. Jónsson á Hólmavík, Bjarnheiður Fossdal á Melum og Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi. Kosningin stendur fram á kl. 12:00 næstkomandi laugardag 3. febrúar og er hægt að kjósa á þessari síðu. Umsagnir um þá efstu má finna hér að neðan.

Arnar S. Jónsson á Hólmavík er nýráðinn forstöðumaður Sauðfjárseturs á Ströndum. Hann flutti aftur til Hólmavíkur að sunnan síðastliðið vor og er m.a. tilnefndur fyrir dugnað í námi og starfi, vinnu að ferðamálum og öfluga þátttöku í félagslífi og menningarstarfi á Ströndum. Í tilnefningum segir t.d. um Arnar að hann “skili öllu á réttum tíma og á fullkominn hátt”.

Bjarnheiður Fossdal á Melum í Árneshreppi eða Badda eins og hún er venjulega kölluð lenti í alvarlegu umferðarslysi síðastliðið sumar og sýndi geysilegan viljastyrk og dugnað við að komast á fætur. Í tilnefningum segir m.a. að “þar komi keppnisskapið við sögu og almennur dugnaður” og að árangurinn hafi náðst “með ótrúlegri þrautseigju og jákvæðni”. Ennfremur segir að hún “eigi allan heiður skilinn” og sé auk þess “góður og duglegur bóndi”. Bjarnheiður sé “venjuleg hetja flesta daga og þegar á reyni hafi hún krafta ofurmennis”.

Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi er 12 ára gömul. Hún hefur af dugnaði og æðruleysi, glímt við erfiðan augnsjúkdóm og stendur frammi fyrir því að verða hugsanlega blind. Hún fór í margar augnaðgerðir til Reykjavíkur á síðasta ári og þurfti að liggja margar vikur á sjúkrahúsi. Í tilnefningum segir meðal annars að Sandra hafi “staðið sig eins og hetja,” og “aldrei misst vonina um betri sjón”. Hún hefur “sýnt þvílíkan kjark í sínum veikindum” og “er aðdáunarverð”. Þrátt fyrir sjúkdóminn hefur hún líka staðið sig vel í skólanum þó allar Reykjavíkurferðirnar hafi tekið verulegan tíma.