22/11/2024

Fjárveiting samþykkt eftir hörð mótmæli Landbúnaðarnefndar

Á sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar þann 23. janúar sl. var samþykkt að setja allt að tvær milljónir í endurbætur á vegi fram Krossárdal í Bitru, vegna viðhalds á sauðfjárveikivarnagirðingu. Sveitarstjórn hafnaði samskonar erindi samhljóða á fundi þann 16. janúar, en tveimur dögum síðar mótmælti Landbúnaðarnefnd Strandabyggðar þeirri ákvörðun harðlega. Í greinargerð sem nefndin sendi sveitarstjórn var þess krafist að sveitarstjórn Strandabyggðar myndi skila milljónunum "í réttan dilk". Því til stuðnings var bent á að hreppsnefnd Broddaneshrepps samþykkti snemma árs 2006 að veita 2 milljónum króna í verkið. Einnig er þeirri spurningu velt upp hvort ekki séu "sömu skuldbindingar við Broddaneshrepp og Hólmavíkurhrepp þegar sameining er."

Í framhaldi af síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar barst sveitarstjórn ennfremur áskorun frá íbúum í fyrrum Broddaneshreppi um að gerðar verði endurbætur á veginum og lagt til þess sama fjármagn og hreppsnefnd Broddaneshrepps hafði áður samþykkt að veita í verkefnið. Þessi áskorun frá íbúunum var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar á þriðjudaginn, auk þess sem þar var tekin fyrir fundargerð Landbúnaðarnefndar. Sveitarstjórn samþykkti að verða við áskoruninni með fyrirvara um samþykki landeigenda. Ráða má af fundargerð að ekki ríki fullkomin sátt um framkvæmdina hjá landeigendum í Krossárdal, en í henni kemur fram að "vitað er að annar landeigandinn er mótfallinn framkvæmdinni".

Það var oddviti Strandabyggðar, Valdemar Guðmundsson, sem bar fram tillögu á fundinum um að samþykkja áskorunina frá íbúunum. Sveitarstjórn var hreint ekki sammála um afgreiðslu málsins en tillagan var þó samþykkt  með tveimur atkvæðum gegn einu. Einn sat hjá og Jón Stefánsson greiddi ekki atkvæði. Við afgreiðslu Landbúnaðarnefndar á tillögunni voru þrír henni meðfylgjandi, en einn greiddi atkvæði gegn henni og einn hefur þá líklega setið hjá. Líklegt er að einhver ástæða ágreiningsins um málið snúist um hversu bundin sveitarstjórn Strandabyggðar er af ákvörðunum fyrri sveitarstjórna Broddanes- og Hólmavíkurhreppa, en einnig má leiða líkur að því að menn greini á um hvort sveitarfélög eigi að borga fyrir framkvæmdir tengdar sauðfjárveikivarnagirðingum sem eru á vegum ríkisins.