Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Impra nýsköpunarmiðstöð hafa gert samkomulag um nýtt stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja til fjölbreyttari atvinnusköpunar í sveitum landsins. Verkefnið hefur verið nefnt Vaxtarsprotar og er sagt frá því í Vefpúlsi Iðntæknistofnunar. Verkefnið nær til landsins alls, en verður hrundið af stað á tveimur svæðum á árinu 2007. Annars vegar er það í byggðum við Húnaflóa og hins vegar Suðurlandi. Kynningarfundur verður haldinn í Sævangi við Steingrímsfjörð 18. febrúar næstkomandi og verður nánar auglýstur er nær dregur.
Í fréttinni í Vefpúlsinum segir meðal annars:
"Verkefnið er tvískipt, annars vegar hvatning og fræðsla sem stendur yfir í fjóra til sex mánuði og hins vegar stuðningur og handleiðsla sem getur varað í allt að tvö ár. Áhugaverðum verkefnum er fylgt eftir með tvíþættum fjárstyrkjum, undirbúningsstyrkjum sem geta numið allt að 400.000 kr. vegna einstakra viðskiptahugmynda og mögulega stærri styrkjum sem veittir eru þátttakendum sem lokið hafa gerð viðskiptaáætlunar og/eða eru lengra komnir með nýja viðskiptahugmynd. …
Verkefnið er opið öllum íbúum í sveit, óháð eðli viðskiptahugmynda eða þeim atvinnugreinum sem viðskiptahugmyndir beinast að.
Verkefninu verður hrundið formlega af stað með kynningarfundum sem hafa það að markmiði að hvetja fólk til að skoða tækifæri í nánasta umhverfi, möguleika á stofnun fyrirtækja eða aukningu umsvifa starfandi fyrirtækja. Tilgangur þessara funda er ekki að ræða atvinnumál viðkomandi svæðis almennt, heldur að beina sjónum að tækifærum einstaklinga á svæðinu. Impra hefur fengið í lið með sér áhugaverða fyrirlesara sem flytja munu erindi á fundunum auk þess sem verkefnið verður kynnt ítarlega. …
Þátttakendur njóta handleiðslu Impru nýsköpunarmiðstöðvar á verkefnistímabilinu en slík þjónusta er hluti af reglulegri starfsemi Impru. Elín Aradóttir verkefnisstjóri hjá Impru veitir nánari upplýsingar um verkefnið í síma 4607970 eða gegnum tölvupóst (elina@iti.is)."
Nánar má fræðast um verkefnið á þessari slóð.