24/11/2024

Sögurölt við Tröllatungu

Þriðjudagskvöldið 31. júlí halda Sögurölt um Dali og Strandir áfram. Nú verður gengið í nágrenni bæjarins Tröllatungu í Tungusveit á Ströndum og hefst gangan á hlaðinu á bænum. Um er að ræða auðvelda og þægilega göngu, við allra hæfi. Leiðsögumaður verður Jón Jónsson þjóðfræðingur. Fyrir ókunnuga er bent á að beygt er fram að Tröllatungu við bæinn Húsavík við Steingrímsfjörð. Húsavík stendur við veg 68, stutt sunnan við vegamót Djúpvegar 61 og Innstrandavegar 68 við Hrófá.

Tröllatunga er sögufræg jörð í meira lagi. Þar var kirkjustaður til ársins 1909 og enn er vel hugsað um kirkjugarðinn sem er upp við húsið. Í nágrenninu eru ýmsar náttúruperlur og þjóðsagnastaðir sem ætlunin er að heimsækja í þessu stutta Sögurölti, þar má helst nefna Gvendarfoss, Gvendarbrunn, Gullhól og Grýlufoss.

Söguröltin eru haldin í samvinnu Strandamanna og Dalamanna, og standa Byggðasafn Dalamanna – Héraðsskjalasafn DalasýsluSauðfjársetur á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn fyrir þeim. Góð mæting hefur verið í söguröltin í sumar og hafa samtals 178 manns mætt í þær fimm gönguferðir sem nú eru að baki.

Eftir gönguna verður kvöldkaffi á boðstólum á Sauðfjársetrinu í Sævangi, fyrir þá sem vilja. Ekkert þátttökugjald er í sjálfri göngunni.