22/11/2024

Bílveltan við Kollsá

Fimm ungmenni frá Hólmavík komust í hann krappan í gær þegar bifreið þeirra fór út af og hafnaði á hvolfi rétt fyrir innan Kollsá. Engin meiðsli urðu, en lífsreynslan var óskemmtileg og nutu þau aðhlynningar á Kollsá meðan beðið var aðstoðar. Eins og fram kom hér á vefnum í gær þá var mikil hálka þar sem veltan varð, en þannig háttaði til í Bæjarhreppi í gær að malbikuðu vegirnir voru auðir en malarvegirnir flughálir. 

Að sögn Hannesar Hilmarssonar sem sér um að hálkuverja í Bæjarhreppi, þá er ekki ætlast til af hálfu Vegagerðarinnar að vegirnir í Bæjarhreppi séu saltaðir endanna á milli þótt hált sé. Einungis er ætlast til að saltaðir séu svokallaðir hættulegir staðir, brattar brekkur, fjölfarin gatnamót og því um líkt. Það megi furðu sæta að á meðan Vegagerðin geri kröfur um sverustu tæki til verksins þá megi í raun ekki nota þau sem skildi. Hannes segist þó stundum salta meira en ætlast sé til, en spurning sé hvort það líðist til lengdar. 

frettamyndir/2006/580-velta-kollsa3.jpg

1

Bíllinn var töluvert skemmdur eftir veltuna