Nú er komið á hreint að aldurstakmark á fyrirhugað áramótaball í Bragganum mun miðast við 16 ára aldur og er það fæðingarárið sem gildir. Þetta kemur fram í pósti Hannesar Leifssonar aðalvarðstjóra á Hólmavík til vefjarins, þar sem segir að orðið hafi mistúlkun á orðalagi manna á milli. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur foreldra til að fara með börnum sínum á áramótadansinn, enda hefur verið aðalsmerki hans undanfarin ár að þar er kynslóðabilið brúað. Eins eru þeir foreldrar sem ætla að heimila börnum sínum að fara sjálf á dansleikinn hvattir til að aka þeim á staðinn og sækja að lokinni skemmtun.