22/11/2024

Brúin yfir Bjarnarfjarðará

Nú er búið að leggja fyrri umferðina af bundnu slitlagi á nýja veginn um Bjarnarfjarðarháls og er mikill munur að aka þar um breiðan og blindhæðalausan veg. Það hefur staðið nokkuð á fjármagni í brúarsmíði yfir Bjarnarfjarðará til að fullkomna verkið, en nú er það verkefni komið á lista um væntanleg útboð í nýjustu framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is stendur til að hefjast handa við brúarsmíði strax í haust, en frestað verður fram á næsta ár að setja síðara lagið af bundna slitlaginu.

Vonir standa til að fjármagn fáist til að ljúka bæði brúarsmíðinni og slitlagslögninni á næsta ári og verkefninu ljúki þá. Gárungarnir höfðu hent að því gaman að fara yrði ána á vaði í vetur, því það mun hafa verið inni í útboðinu um vegagerðina að rífa gömlu brúna í lok vinnu við veginn í haust.