22/11/2024

Menntamálaráðherra staðfestir friðun

Menntamálaráðherra hefur staðfest tillögu Húsafriðunarnefndar um friðun á gamla barnaskólanum á Hólmavík. Þetta kom fram í Svæðisútvarpi Vestfjarða í vikunni og var þar jafnframt haft eftir Ásdísi Leifsdóttir sveitarstjóra á Hólmavík að sveitarstjórn vildi gera vel við gömul hús og nú yrði annarra leiða leitað. Svo gæti einnig farið að sveitarstjórn hætti við að rífa gamla vatnstankinn. Gamli barnaskólinn var reistur 1913 og gegndi jafnframt hlutverki þinghúss og samkomuhúss.

Skólinn var teiknaður af húsameistara ríkisins Rögnvaldi Ólafssyni. Í vor var húsið auglýst til sölu og bárust nokkur tilboð, áður en sveitarstjórn ákvað að rífa húsið frekar vegna þess að það skerti möguleika á gatnagerð á svæðinu.