22/11/2024

Gleðihlaupið Þrístrendingur á 17. júní

Sjöunda Þrístrendingshlaupið er að þessu sinni verður haldið á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní. Um er að ræða gleðihlaup þar sem hlaupið er frá bænum Kleifum fyrir botni Gilsfjarðar yfir Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar, þaðan yfir Bitruháls að bænum Gröf og svo þaðan um Krossárdalsheiði aftur að Kleifum. Þá hefur verið hlaupið milli þriggja stranda (Þrístrendingur) yfir þrjá fjallvegi og um þrjár sýslur ef maður vandar sig.

Í heildina er hlaupið rúmlega 41 km en ef fólk vill ekki hlaupa svo langt þá er enginn vandi að sleppa einhverjum hluta leiðarinnar. Alltaf velja einhverjir að keyra hluta leiðarinnar og þess vegna auðvelt að fá að sitja í einn eða tvo leggi. Fyrsti leggur, Steinadalsheiðin, er um 21 km. Annar leggur, Bitruháls, er um 10 km og sá þriðji, Krossárdalsheiði, er einnig 10 km. Fólk getur því valið hvort það hleypur 10, 20, 30 eða 40 km.

Þetta verður sjöunda árið í röð sem Þrístrendingur er hlaupinn í júní, en það eru þeir frændur Dofri Hermannsson frá Kleifum og Stefán Gíslason frá Gröf sem standa fyrir uppátækinu. Frítt er í hlaupið og allir velkomnir en fólk er beðið að tilkynna komu sína með því að melda sig á viðburðinn á Facebook.