22/11/2024

Strandabyggð mótmælir hugmyndum um héraðsvegi

Sveitarstjóri Strandabyggðar sendi á dögunum harðorð mótmæli við drögum að frumvarpi til vegalaga sem Samgönguráðuneytið óskaði eftir umsögnum um frá sveitarfélögum. Þar er gert ráð fyrir svokölluðum héraðsvegum sem eru afleggjarar heim að sveitarbæjum og hluti tengivega og að viðhald á þeim verði á ábyrgð sveitarfélaga. Í fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar kemur fram að frestur hafi verið gefinn til 8. nóvember að skila inn umsögnum og ráðuneytið hafi ekki sent sveitarstjórnum bréf heldur einungis birt fréttatilkynningu um þetta á vef sínum. Því megi ætla að ætla að erindið hafi farið fram hjá einhverjum sveitarfélögum vegna þessa. 

Umsögn sveitarstjóra sem nálgast má í fundargerð Strandabyggðar frá 14. nóvember er svohljóðandi:

“Sveitarstjórn Strandabyggðar mótmælir harðlega þeim áformum að færa ábyrgð á safnvegum og hluta tengivega yfir á sveitarfélagið.  Ekkert hefur verið haft samband við sveitarfélagið til að kynna þessar hugmyndir, lýsa umfangi verkefnisins né heldur hvernig skuli fjármagna það.  Eigi sveitarfélagið að taka við verkefninu þarf að liggja fyrir nákvæm lýsing á umfangi þess og útfærsla á fjármögnun.”