26/11/2024

Íslandsmótið í hrútadómum á Sauðfjársetrinu sunnudaginn 21. ágúst

hrutadomar2010e

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið sunnudaginn 21. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð. Jafnan er góð þátttaka í hrútadómunum, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra hrútaþuklara. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Síðasta ár sigraði Guðmundur Gunnarsson bóndi Kjarlaksvöllum í Saurbæ, í öðru sæti var Vilberg Þráinsson Hríshóli í Reykhólahreppi og í þriðja sæti varð Bjarki Reynisson Kjarlaksvöllum. Strandamenn eru áhugasamir um að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn þetta árið, en fleiri hugsa sér örugglega gott til glóðarinnar.