05/01/2025

Fræðslukvöld um hvalbræðslu í Hveravík

Frá HveravíkNæstkomandi þriðjudagskvöld kl. 20:00 mun Strandagaldur standa fyrir fræðslukvöldi á Café Riis á Hólmavík þar sem fólki gefst tækifæri á að fræðast um fornleifarannsóknirnar sem fram fara á rústum á Strákatanga í Hveravík í Steingrímsfirði. Þar hafa verið grafnar upp rústir hvalveiðistöðvar, mögulega baskneskrar, þar sem fram hefur farið bræðsla á hvalspiki af dýrum sem veidd hafa verið í Steingrímsfirði. Í síðustu viku var komið niður á mikla múrsteinshleðslu sem hefur verið umgjörð bræðslunnar. Nokkrir munir sem hafa fundist við uppgröftinn verða sýndir og farið yfir sögu um veru baskneskra sjómanna við Íslandsstrendur sem kunnug er. Ragnar Edvardsson og Magnús Rafnsson munu kynna niðurstöður sínar. Aðgangseyrir er enginn.

Tilgáta er um að upphaf vinnslunnar í Hveravík hafi verið mjög snemma á 17. öld og staðið yfir með hléum í áratugi og jafnvel að aðrar þjóðir hafi komið að vinnslunni þegar leið á öldina. Það er ekki talið ólíklegt að Strandamenn hafi átt launverslun við hvalveiðimennina þrátt fyrir að einokunarverslun Dana á Íslandi hafi verið komið á strax árið 1602. Alla 17. öldina skiptu erlend fiskiskip hundruðum á Íslandsmiðum og launverslun við erlenda kaupmenn var mikil á Íslandi. Þau viðskipti voru mikill þyrnir í augum yfirvalda þess tíma og litið á þau sem alvarlegt lögbrot.


Einn þeirra muna sem hafa komið upp við uppgröftinn í Hveravík. Haganlega skreytt brot af reykjarpípu. Hægt er að skoða myndir af fleiri gripum sem komu upp á síðasta ári með því að smella hér.