Þann 19. júní verður opnuð sýning og afhjúpaður minnisvarði um Guðrúnu Bjarnadóttur (1770-1859) í minjasafninu Kört í Trékyllisvík og hefst viðburðurinn kl. 13:30. Í tilefni opnunarinnar verða léttar veitingar í boði og eru allir hjartanlega velkomnir. Sýningin ber yfirskriftina Gunna fótalausa en það viðurnefni fékk Guðrún 15 ára gömul þegar hana kól svo illa að taka varð neðan af báðum fótum hennar. Fötluðum ungum konum á 18. öld voru ekki margir vegir færir en Guðrún markaði sér sína eigin slóð. Hún lét kyn, fötlun og þjóðfélagsstöðu ekki aftra sér í að verða bátasmiður, bóndi og jarðeigandi í Árneshreppi. Guðrún var vel liðin og framsýn kona sem steig ölduna í lífsins ólgusjó af fádæma styrk.
Saga Guðrúnar verður að teljast einstök hvort sem horft er á hana út frá stöðu kvenna eða fatlaðra á hennar tíma. Ævi Guðrúnar og störfum eru gerð skil í lítilli sýningu í minjasafninu Kört sem staðsett er í Trékyllisvík miðri. Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða.
Í Kört er einnig hægt að kynna sér sögu svæðisins, versla handverk af heimamönnum eða setjast niður með rjúkandi kaffibolla í fallegu umhverfi. Safnið er opið alla daga í sumar frá 10 til 18.
Meðfylgjandi mynd er hluti af sýningunni um Gunnu í Kört.