Leikfélag Hólmavíkur býður upp á námskeið í kvikspuna eða Larpi dagana 7. og 8. maí – laugardagskvöldið kl. 20-22 og sunnudaginn kl. 9-17/18. Í kynningu segir: „Ertu fyrir ævintýri og sögur og elskar að klæða að klæða þig upp? Dreymir þig dagdrauma um að sveifla sverði eða berjast við forynjur? Hugsarðu upp heilu senurnar í huganum? Finnst þér gaman að leika þér?“ Í kvikspuna (Live Action Role Playing) sameinast allir þessir þættir á auðskiljanlegan og skemmtilegan máta, þar sem spilarar á öllum aldri koma saman og taka þátt í því að skapa sín eigin sögur og ævintýri, samtímis þvi að fá útrás í hreyfingu og félagslífi – og mögulega læra aðeins betur á sjálf sig í leiðinni.
Kvikspuni er jaðarsport sem er stundað bæði innandyra og utan, allan ársins hring og á sér nærri engin takmörk. Allir geta fundið kvikspuna við sitt hæfi. Í grunninn byggir leikurinn á því að taka sér gerfi sögupersónu og taka þátt ásamt öðrum í gagnvirkum söguheimi þar sem allt getur gerst. Á þessu námskeiði verður farið í grunninn í skandinavískum kvikspuna (Reglulaus spuni/Nordic Larping), bardagaaðferðum og vopnaburði og svo auðvitað persónu- og sögusköpun. Auðvitað verður líka ‘larpað’ og allir sem vilja fá að vera með og skemmta sér og öðrum.
Leiðbeinendur eru Unnur og Bjarni sem eru bæði gæðanördar og larparar til langs tíma, auk þess að hafa verið að velta fyrir sér teygjanleika og nýtingu kvikspuna til listgjörnings og kennslu. Námskeiðið hentar öllum sem eru með húmorinn í lagi. Nánar má fræðast um viðburðinn á Facebook undir Kvikspuni/Larp á Hólmavík.
Meðfylgjandi mynd gerði Sunneva Þórðardóttir frá Laugarholti í Skjaldfannadal, félagi í Leikfélagi Hólmavíkur, af upplifun af Larpi syðra.