Svæðisútvarp Vestfjarða gerði í dag dálitla verðkönnun í sjoppum og söluskálum á Vestfjörðum. Í frétt þeirra á ruv.is kemur fram að það er 105 króna munur á einni með öllu, hálfslíters kók í plasti og risa prins pólói. Spurt var um verðið á níu stöðum, allt frá Ströndum og vestur á Barðaströnd. Meðalverðið var 472 krónur, en dýrast var að seðja hungrið á Hólmavík þar sem máltíðin kostaði 510 krónur. Virðist því greinilega nokkur fylgni milli verðs á þessari gæðamáltíð og póstnúmera staðanna. Ódýrust voru herlegheitin á Tálknafirði eða 405 krónur.