Fjallskilaseðill Strandabyggðar er kominn út og hefur verið birtur á vef sveitarfélagsins, en í honum kemur fram hvernig leitum og réttum verður háttað nú í haust. Samkvæmt þeim merka seðli sem er í hávegum hafður á öllum betri bæjum verður réttað í Skeljavíkurrétt við Hólmavík laugardaginn 12. september kl. 16:00, Staðarrétt í Steingrímsfirði sunnudaginn 13. september kl. 14:00, Kirkjubólsrétt við Steingrímsfjörð sunnudaginn 20. september kl. 14:00 og í fjárhúsum á Broddanesi við Kollafjörð sama dag kl. 16:00. Seinni réttir á sömu stöðum eru svo hálfum mánuði síðar. Á vef Húnaþings kemur fram að réttað verði í Hvalsárrétt í Hrútafirði laugardaginn 19. september og sunnudaginn 4. október. Til stendur að birta yfirlit yfir réttir á landinu öllu á vef Bændablaðsins og eru forsvarsmenn slíkra skemmtana beðnir að senda blaðinu línu um skipulagið – stund og stað.