Hljómsveitin Sigur Rós hefur verið í óauglýstu tónleikaferðalagi um Ísland undanfarið og verður með tónleika í síldarverksmiðjunni í Djúpavík næstkomandi fimmtudagskvöld. Mikil leynd virðist hvíla yfir þessu tónleikaferðalagi og eftir því sem strandir.saudfjarsetur.is kemst næst þá á boðskapurinn um tónleikana að berast út á meðal fólks. Einnig er stefnt að tónleikum í Ásbyrgi í Þingeyjarsýslu fljótlega. Þetta verður í annað sinn sem Sigur Rós verður með tónleika á Ströndum en hljómsveitin hélt gríðarlega vel heppnaða og eftirminnilega tónleika á Galdrahátíðinni á Ströndum í Bjarnarfirði sumarið 2001. Myndirnar að neðan eru frá tónleikum Sigur Rósar á Galdrahátíðinni.
Ljósm.: Jóhann Björn Arngrímsson