22/11/2024

Verður vegagerð um Arnkötludal frestað?

Nýverið kynnti ríkisstjórn Íslands aðgerðir til að slá á þenslu og verðbólgu í þjóðfélaginu, en bregðast á við m.a. með niðurskurði á framkvæmdum, einkum í vegagerð. Ekki hefur verið gefinn út nákvæmur listi um hvaða verkefnum á að fresta, en talað hefur verið um öllum vegagerðarverkefnum til ársins 2008 sem enn hafa ekki verið boðin út eða samið um verði slegið á frest. Strandamenn eru margir uggandi vegna þessa, því tvö stórverkefni á Ströndum eru á lista um fyrirhuguð verkefni, annars vegar vegagerð um Arnkötludal og Gautsdal og hins vegar breytingar á hringveginum um Hrútafjarðarbotn.

Bíða Strandamenn því eftir að sjá nákvæma útfærslu á þessum frestunum á verkefnum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stendur fyrir og finnst mönnum skjóta skökku við ef niðurskurðurinn verður á þeim svæðum sem eiga helst í vök að verjast.

Þeir eru þó líka allmargir sem trúa ekki að það verði Strandamenn og Vestfirðingar sem aðgerðir til að slá á þensluna bitni á, þar sem uppgangur síðustu ára hefur verið mjög afmarkaður og bundinn við stór-Reykjavíkursvæðið, Eyjafjörð og Austurland.