22/11/2024

Snæfinnur fær frelsi

Nú líður að því að snæuglan sem fannst við bæinn Ós rétt innan við Hólmavík fá frelsi á ný. Hún hefur verið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í endurhæfingu og læknismeðferð síðan snemma í september á síðasta ári, en hún var talsvert slösuð á væng þegar Þórólfur Guðjónsson fann hana fasta í girðingu. Uglan var strax flutt suður og var fyrst höfð í smádýrahúsi Húsdýragarðsins en fór síðar í stærra búr þar sem hún gat flogið um. Hún hefur braggast vel, étur vel og er orðin býsna viðskotaill sem að mati dýrahirða er merki um hreysti. Uglunni verður sleppt á morgun, á þeim slóðum sem hún fannst á fyrir tæpu ári síðan.

Uglan er karlfugl á fyrsta ári. Karlfuglarnir verða nær alhvítir er þeir verða fullvaxta en fullorðnir kvenfuglar eru með grábrúnar þverrákir um sig alla og ávallt stærri en karlfuglinn. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is gaf uglunni upphaflega nafnið Snæfríður, en því var síðar breytt í Snæfinn eftir að kyn uglunnar varð ljóst. Vefurinn mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með Snæfinni á morgun og hvernig honum reiðir af í fyrstu flugtökunum.